Reykjavíkurborg og börn

Hér fer lýsing af þriðjudagsmorgninum eftir páska hjá mér.

6:50:

Drengurinn vaknar og farið er á ról. Konan liggur veik og getur sig lítið bært, enda ólétt af þriðja barninu. Við feðgarnir förum upp og fáum okkur morgunmat. Smá sjálfstæðisbarátta kemur upp eins og venjulega. Dóttirin vaknar svo eilítið seinna og kemur upp til okkar í morgunmatinn. Þetta ferli gengur yfirleitt ekki alveg snurðulaust fyrir sig, og þá síður eftir svona frí. Ég reyni yfirleitt að glugga í blöðin yfir kaffibollanum á þessari stund, þannig að ef ég blogga einhverja steypu um eitthvert málefni í framtíðinni, þá er það v.þ.a. ég hef einungis náð að lesa hálfa fréttina. Þá vitið þið það.

 

8:20

Fjöldi ekinna kílómetra: 0, staðsetning: Víkurbakki 24

Allir komnir í útiföt og hersingin fer út í bíl. Það tekur smá tíma að koma bílnum af stað, enda er svolítið gaman að labba um í snjódrífunni sem kom um nóttina og pabbi þurfti að skafa.

 

8:35

Fjöldi ekinna kílómetra: 4, staðsetning: Hraunbær

Allir út úr bílnum hjá dagmóður drengsins.

 

8:55

Fjöldi ekinna kílómetra: 9, staðsetning: Gvendargeisli

Kominn í leikskóla dótturinnar. Hann er uppi við Reynisvatn, en þar bjuggum við áður. Það hefur skapað okkur talsverð vandræði að fá ekki dóttur okkar flutta um leikskóla.  Við skiptum um húsnæði í janúar, og höfum þurft að fara með stelpuna alla þessa leið í nú 3 mánuði.

 

9:55

Fjöldi ekinna kílómetra: 20, staðsetning: Flugvallarvegur

Kominn í vinnuna. Ég reyndar stoppaði í Byko, það skýrir c.a. 20 min.

 

Ég ek 20 km á leið í vinnuna í stað 6 km. Þetta eru því 28 km aukalega á dag (fram og til baka), þetta gerir um 6 kg af koltvísýringslosun aukalega vegna manneklu á leikskólum. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu þá fá fást greiddar 68 kr. Fyrir hvern ekinn km á einkabíl. Það gera 1904 kr í aukalegan kostnað vegna aksturs á dag. Að auki kemur gríðarlegur kostnaður vegna þess tíma sem í þetta fer ásamt þeirri áhættu sem á börnin er lagt að sitja í bíl alla þessa vegalengd.

Jajja, en okkur hjónunum skilst að flutningurinn fáist í gegn um næstu mánaðarmót, frábært. Þetta tímabil hefur þá staðið í ca þrjá og hálfan mánuð, þetta gerir um 400 kg af losun koltvísýrings, 133.280 kr í ferðakostnað, stress, time is money og svo mætti áfram telja. En í batnandi borg er best að lifa, nú er bara næst að ráðast á lóðaskort og samgöngur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband