Berð þú virðingu fyrir ökuréttindinu þínu?

Mikil skrif og umfjallanir um umferðaröryggismál hafa sprottið upp að undanförnu. Tilefnið er ærið og nú síðast kom inn á borð til fjölmiðla enn ein sorgarsaga um hraðakstur sem endaði snöggt á Hamborgarabúllu Tómasar. Ég sá fréttaskot við búlluna þar sem tekið var viðtal við Guðbrand Bogason formann Ökukennarafélags Íslands. Þar var hann að fjalla um virðingu fyrir ökuréttindum og tilhögun náms til bílprófs.

Þar hitti hann naglann á höfuðið. Við ökumenn þurfum að bæta okkur í að bera virðingu fyrir þessum réttindum. Einnig þarf að átta sig á að rétturinn til að stjórna ökutæki fellur niður ef við erum ekki til þess bær að aka. Ástæður fyrir því geta verið margskonar. Þar ber fyrst að geta ölvun og akstur undir áhrifum fíkniefna, þetta vitum við svo sem öll. En einnig eigum við ekki að aka ef við erum of þreytt, sljó vegna heilsufarsástæðna og fleira getur komið til.

Ástæðan er sú að athyglisgeta og viðbragðsgeta okkar skerðist við það að vera þreytt, sljóvguð og svo frv. Ef athyglin er ekki í góðu lagi, þá tökum við eftir hættum seinna en ella, og vegna þess að viðbragðið lengist þá erum við lengur að taka þá ákvörðun um hvernig við skulum bregðast við.

Tökum dæmi. Bifreið er ekið eftir götu á 50 km/klst. Skyndilega hleypur krakki inn á akbrautina. Ekki er óvarlegt að áætla að það taki ökumann sem er í góðu hæfi til aksturs frá 0,5 til 2,5 sekúndur að "byrja" hemlun. Við skulum notast við 1,5 sekúndur, þá ekur sá hinn sami um 21 m áður en hemlun hefst, og ef vegyfirborðið er þurrt malbik þá nær ökumaðurinn að stöðva ökutækið á rúmum 12 metrum frá því að hemlun hófst. Þetta gera um 33 m. En fyrir hverja sekúndu sem bætist við viðbragðstímann bætast við tæplega 14 m.

Hættan er ekki einungis sú að aka á annan vegfaranda, heldur eykst einnig hættan á útafakstri.

En umfram allt, spennið beltið og akið eftir aðstæðum, eða bara akið ekki ef svo ber undir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband