Sunnudagur, 8. apríl 2007
41 einbreið
Við hjónakornin skelltum okkur austur á land um páskana. Þetta er æði löng leið að keyra og okkur til dægrastyttingar þá töldum við einbreiðu brýrnar á leiðinni. Við ókum áleiðis austur Suðurlandsveg til Egilstaða að morgni Skírdags og sólin skein sínu fegursta. Niðurstaða þessarar rannsóknar var að um 41 einbreið brú var á leiðinni frá Reykjavík til afleggjarans yfir Öxi og svo í Skriðdal til Egilstaða. Því er einsett að verkefnin eru æði mörg sem Vegagerðin hefur fyrir stafni.
Annað sem var eftirtektavert var að aka nýju göngin undir Almannaskarð, þau höfum við ekki ekið áður. En það var ansi íronískt að aka undir gamla veginum að gangnamunnanum vestan meginn. Vegurinn er ansi ískyggilegar svona séður að neðan. Ég minnist ekki að hafa fundist hann vera svona hrikalegur áður. Furðulegt fyrirbæri sem mannsheilinn er, við virðumst meta áhættu eftir því hvaða valmöguleika við höfum. Eðlislægt áhættumat er því afstætt og háð vali sem einstaklingurinn hefur hverju sinni.
Það er ansi merkilegt hvað í raun er búið að byggja mikið af húsnæði hér á Egilstöðum, og allt hefur þetta selst á endanum. Það er virkilega gaman að sjá að íbúar miðausturlands hafa fengið að prófa þenslu og jákvæðan hagvöxt eins og við íbúar höfuðborgarsvæðisins þekkjum svo vel. Meira að segja er tengdamamma kominn í rekstur, og þá er nú mikið sagt. Hún er farin að reka kósí gistiheimili hér rétt fyrir utan bæinn, nánar tiltekið á Eyvindará. Endilega kíkið á heimasíðu setursins, http://www.eyvindara.is/. Og ef ykkur vantar nætustað þegar þið lesendur góðir farið á hreindýr eða eitthvað þvíumlíkt þá er ég þess fullviss að konan taki vel á móti ykkur.
Í gær fórum við svo í brullaup til Breiðdalsvíkur, gaman af því. Greinarhöfundur þakkar fyrir sig og óskar brúðhjónunum Frú Ragnheiði Örnu og Guðjóni ynnilega til hamingju með fallega og skemmtilega athöfn og þrusu veislu á eftir. Dísös hvað þorskurinn var góður, ohh, og koníakið á eftir með kaffinu og terunni. Ég vil því að gefnu tilefni þakka almættinu fyrir að setja mig niður á þessa breiddargráðu á þessu tímaskeiði jarðarinnar. Það verður ekki af því skafið að við höfum það glimrandi gott eftir gott uppbyggingarstarf kynslóðanna á undan.
Og svona til að botna lesturinn, þá verð ég nú að segja það að eldriborgarar þessa lands eiga það skilið að kostningarnar fái nú að snúast um þeirra mál. Við getum ekki verið þekkt fyrir að bjóða ekki öllum upp á einbýli síðustu æviárin sem og að það Á EKKI að þekkjast að hjón séu aðskilin á síðustu metrunum. Lögum það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.