Við þurfum nýtt hagstjórnartæki

Oft hefur Davíð mælt vel og hér gerir hann ekki undantekningu á því. Ekki það að í orðunum "Höfum ekki efni á að tapa í baráttunni við verðbólguna"  felast engin vísindi. Ég vísa í síðustu færslu mína um hagstjórnartækið stýrivexti seðlabankans http://saevarl.blog.is/blog/efastu/entry/353389/ . Ég er þess fullviss að hægt sé að koma upp betra hagstjórnartæki en við höfum til taks í dag. Annað hvort með því að bæta það sem fyrir er, nú eða koma upp nýju tæki ss breytilegri greiðsluprósentu í lífeyrissjóði eins og ég útlista betur í fyrri færslu.


mbl.is Davíð: Höfum ekki efni á að tapa í baráttunni við verðbólguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsyn þess að innleiða nýtt hagstjórnartæki

Mikil ólga hefur verið í efnahagsmálum þjóðarinnar undanfarin ár. Hagvöxtur hefur verið mikill og kaupmáttur launafólks hefur vaxið. Ný vandamál steðja að hagkerfinu, vandamál sem stafa af jákvæðri stöðu efnahagslífsins.

 

Stýrivextir Seðlabankans eru ekki að hafa þau áhrif sem til þeirra er ætlast sem nánast eina hagstjórnartækið. Stjórnmálamenn eiga í erfiðleikum með að draga úr gjöldum ríkisins sem og einnig hafa útgjöld sveitarfélagana vaxið. Ýmsir hafa gagnrýnt að aðhald vanti í opinberan rekstur en ekki verður séð annað en að útþensla opinnberra aðila haldi áfram, helsta vopnið gegn útþenslunni er lækkun skatta. En lækkun skatta færir einungis peningana til. Ekki er séð að almenningur muni slá á verðbólgu við aukinn kaupmátt.

 

En hvað er þá til ráða? Í sumum nágrannalöndum okkar eru stýrivextir tengdir við breytilega vexti almenningslána, ss húsnæðislána. Þetta hefur í för með sér að litlar stýrivaxtabreytingar færa til mikla fjármuni, en aðilarnir sem vaxtaákvörðunin hefur bein áhrif á eru það margir að hver og einn ber lítinn hluta. Þetta þykir mér vera áhugaverð leið en hver fær peningana þegar vextir breytast. Og af hverju skildu lánþegar þessara lána einir standa undir sveiflunum.

 

Kannski væri hentugra að hafa breytilegan tekjuskatt. Það myndi þó hafa í för með sér að í góðæri væru skattgreiðendur að færa stjórnmálamönnum stjórn peninganna sem kæmu inn í ríkiskassann vegna hærri skattprósentu, en þá stæðu allir tekjuskattsgreiðendur að því að koma á stöðuleika. Ekki hugnast mér þessi leið en hún væri samt eflaust betri en það ástand sem verið hefur á Íslandi undanfarin ár.

 

En hvers vegna ekki að koma á breytilegri greiðslu í lífeyrisjóði? Hvaða áhrif myndi það hafa? Lífeyrissjóðirnir fengju meira fjármagn í góðæri en hallæri. Undirritaður varpar fram þessari hugmynd með það fyrir sjónarmið að hún fái umfjöllun. Slík leið myndi hafa mikil áhrif, neikvæð og jákvæð. Þessa hugmynd má útfæra á margan máta og mörgum spurningum þarf að svara.

 

*       Á breytileikinn að vera á sameignar- eða séreignarsparnaði, eða báðum?

*       Eiga að gilda sérreglur um meðferð þessara fjármuna eða er nægjanlegt að um hana gilda sömu reglur og um almenna meðferð fjármuna lífeyrissjóðanna?

 

Mikilvægasta spurningin er þó hvort þetta myndi hafa jákvæð áhrif á hagkerfið og peningastjórnina.


mbl.is Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um 0,45%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilldar markaðssetning

Ef þetta er ekki runnið undan rifjum markaðsdeildar Singapore Airlines þá veit ég ekki hvað. Það er í það minnsta ekki mikil siðgæðisvararlykt af þessari fréttatilkynningu. Sex sells sagði skáldið forðum daga og ég veðja á að það er það sem vakti fyrir félaginu.
mbl.is Háloftakynlíf bannað í risaþotu Airbus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ég sem hélt að þetta væri biluð myndavél

Ég beið á beygjuljósunum á þessum gatnamótum í gærmorgun á leið til vinnu. Á þessum stutta tíma sem ég dvaldi þarna smellti vélin af um 10 - 15 sinnum. Ég taldi þetta vera bilaða löggæslumyndavél því allir bílarnir fóru yfir á grænu ljósi. Ég hafði því ákveðið að hringja í lögregluna þegar ég væri kominn í vinnuna en gleymdi því svo vegna anna, sem betur fer því nú les ég að þetta var ekki þannig vél, heldur var verið að nappa ökuþóra fyrir að aka of hratt. Sem er svo sem ágætt því þarna er talsverð umferð gangandi vegfarenda og sú umferð á eftir að aukast með td tilkomu HR í öskjuhlíðina og alla fátæku bíllausu námsmennina sem þeirri stofnun fylgir :).

Jajja, þetta er nóg í bili því hjól atvinnulífsins snúast ekki nema að þeim sé snúið.


mbl.is Á fjórða hundrað ökumanna ók of hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr miðbær

Í laugardags "Blaðinu" var kynnt hugmynd um að skipuleggja svæði undir stórhýsi fyrir stofnanir og fyrirtæki á Geirsnefi. Rökstuðningurinn var að að auðvelda verndun gamalla húsa og götumynda í 101 ásamt því að fyrirbyggja byggingu gríðarlega dýrra og umfangsmikilla samgöngumannvirkja í Reykjavík.

Heyr heyr

Þessi hugmynd féll mér að skapi og ég bjóst við að hún fengi sinn stall í umræðu næstu daga. En svo virðist sem fáir hafi lesið Blaðið á laugardaginn. Geirsnefið er tilvalinn staðsetning fyrir uppbyggingu nútíma miðbæjarkjarna. Þar má staðsetja setja niður vinnustaði fyrir þúsundir mun meira miðsvæðis en 101, þar má líka rífa niður iðnaðarhverfin beggja megin við án þess að sé verið að tapa minjum, nema að einhverjir vilji halda upp á þessi verkstæðishús. Það er nokkuð einsýnt að ef rýnt er nokkra tugi ára fram í tímann að þá mun gatnakerfi Höfuðborgarsvæðisins þurfa að taka miklum stakkaskiptum ef halda á í við uppbygginguna. Og þá mun þurfa að rífa hús, leggja malbik yfir græn svæði og svo frv.

Ég mæli með að fólk kynni sér greinina um nýjan miðbæ í Blaðinu á laugardaginn (8.9.2007)


Morgunblaðið 6. febrúar 1949

Óli H Þórðar er að vinna að rannsóknarverkefni um öll banaslys í umferðinni frá upphafi bílaumferðar hér á Íslandi. Hann er með aðstöðu hjá okkur RNU mönnum og kemur alltaf reglulega út úr kompunni sinni með gamlar fréttir úr mogganum, oft og tíðum áhugaverð lestning.

Um daginn koma hann með frétt til mín þar sem sagt var frá bruna bílaverkstæðis á Blönduósi. En verkstæði þetta rak afi minn heitinn. En þessi bruni fór ansi illa með ömmu og afa því tryggingum var eitthvað áfátt. Neyddust þau til að flytja í bragga uppi í sveit sem varla hélt vatni og vindi eftir brunann og gerðust þau bændur á Orrastöðum sem er bær í eyði rétt við Húnavelli.

Talandi um bændur. Á síðunni sem Óli prentaði út fyrir mig var nokkuð um áhugaverðar fréttir, ein var á þessa leið og er bráðfyndin lestning.

Tillögur Sjálfstæðismanna um landbúaðarvjelar og jeppa samþykktar á Alþingi
______________
Alþýðuflokkurinn eini flokkurinn, sem greiddi atkvæði gegn því
______________
Alþingi samþykkti s.l. föstudag þingsályktunartillögur þær sem þingmenn úr sveitakjördæmum Sjálfstæðisflokksins fluttu um innflutning jeppabifreiða og landbúnaðarvjela. Allir flokkar þingsins greiddu tillögunum atkvæði nema kratarnir, sem sýndu skilning sinn á þörfum landbúnaðarins með því að leggjast gegn innflutningi þessara nauðsynlegu tækja.
Landbúnaðarvjelar
Tillaga um landbúnaðarvjelarnar var samþykkt með smávægilegum breytingum. Er hún á þessa leið:
Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um að á næsta ári verði fluttar til landsins landbúnaðarvjelar eftir því sem þörf krefur, svo sem jarðýtur, skurðgröfur og aðrar stórvirkar vjelar, til að fullnægja þörf búnaðarfjelaga og ræktunarsambanda. - Einnig minni dráttarvjelar og aðrar búfjelar, eftir því sem frekast er unnt. Jafnframt verður sjeð fyrir nægjanlegum varahlutum.
Leggur Alþingi fyrir ríkisstjórn og fjárhagsráð að fullnægja þörf þeirri, sem hjer er um rætt, áður en leyfður er innflutningur á bílum.
Að sjálfsögðu ber að skilja síðari hluta tillögunnar þannig að þar sje einungis átt við aðrar bifreiðar en jeppabifreiðar.
Útúrsnúningur Alþýðublaðsins í gær byggist því aðeins eins og svo oft áður á fákænsku kratanna.
Var tillagan samþykkt með 27 atkvæðum gegn 7.
750 jeppabifreiðar
Tillagan um innflutning jeppa bifreiða er svohljóðandi:
"Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um, að á næsta ári verði fluttar til landsins eigi færri en 750 jeppabifreiðar og hliðstæðar bifreiðar til landbúnaðarþarfa, sem eingöngu verði seldar bændum, enda verði settar strangar reglur, sem tryggi að þær haldist í sveitum landsins í eigu þeirra er landbúnað stunda.
Jafnframt verði sjeð fyrir nægum innflutningi varahluta til þessara og annara atvinnubifreiða."
Var tillagan samþykkt með 27 atkvæðum gegn 7.
Eins og kunnugt  er var tillaga Sjálfstæðismanna um að fluttir yrðu inn á þessu ári 600 jeppar en nefndin hækkaði töluna upp í 750 og studdist þar við tillögu Búnaðarfjelags Íslands, sem gert hafi þá áætlun að flytja þyrfti inn 1500 til þess að fullnægja þörfum bænda.

Skotið á Alþýðublaðið fer þarna fremst í flokki, en á þessari síðu var annað skot Morgunblaðsmanna á aðra fréttamiðla.

Reikningsútkoma Þjóðviljans nr. 2
Í þrídálka fyrirsögn Þjóðviljans í gær segir að "Íhaldið hafi samþykt að gera als ekkert fyrir atvinnulausa verkamenn"
Samkv fjárhagsáætlun bæjarins sem Þjóðviljamenn gera að umtalsefni og hafa fyrir framan sig, eru eftirfarandi samþyktir gerðar:
1. Að bæjarsjóður leggi til verkl. framkv. 20 milj.
2. Fyrirtæki bæjarins leggi fram 8 milj.
3. Auk þess virkjun Írufoss í Sogni og þar fari í verklaun 7 milj.
_____________
Samtals 35 milj.

En eftir útreikningi Þjóðviljamanna er 20,000,000+8,000,000+7,000,000 = 0 (núll). - Skyldi hæfileiki Þjóðviljans til að skýra rjett frá staðreyndum ekki reynast vera mjög nálægt núllpunktinum? Eða hvernig verður þetta fyrirbæri blaðamennskunnar skýrt á annan hátt?

Ég sprakk úr hlátri þegar ég las þessar fréttir, það var greinilega miklu skemmtilegra að lesa blöðin í gamla daga. Ég tek alla stafsetnigu upp eftir greinunum, líka kommunar í milljónunum.

 

 


Ég fékk að finna fyrir þessu

Aðfararnótt sunnudags ákvað nágranninn minn að halda partý. Partýið byrjaði um miðnætti og um kl 3 fór undirritaður ansi pirraður yfir og las yfir honum pistilinn, enda var þá ekkert fararsnið á veislugestum og þrýstibylgjur frá hljómfluttingiskerfi granna urðu stærri í sniðum eftir því sem hafði liðið á nóttina, í gegn um tónlistina komu svo öskur og læti, trömmp og hlátrasköll og allt annað sem hefðbundnu skrílspartý fylgir.

Um 3:30 brast svo þolinmæðin og minn hringdi á lögregluna, það hefur undirritaður aldrei gert áður. En áköf rödd í símanum svaraði að

"jahh, nú er ástandið í Reykjavík þannig að lögreglan getur ekki sinnt heimaútköllum".

Þannig fór nú með það. Hótun mín um að kalla til lögregluna ef granni færi nú ekki að hafa sig hæfan féll um sjálfa sig. Partýið lognaði svo ekki út af fyrr en rétt um 6:00 og ég gat sofið í um 1/2 tíma, en sonur minn vaknaði hress og kátur um 6:30 og vildi að sjálfsögðu fá serveraðan morgunmat med det hele.


mbl.is Fjöldi slagsmála á höfuðborgarsvæðinu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjósund

Jajja, haldið þið ekki að kallinn hafi ekki skellt sér í sjósund, takk fyrir. Ég staldraði reyndar frekar stutt við í sjónum, en farið var í Nauthólsvík. Það skal tekið hér fram að þegar skrifað er Nauthólsvík þá er ekki átt við innan garðsins heldur utan.

Það verður að segjast að kuldinn stakk vel í upphafi, hjartað tók góðan kipp upp um einhverja tugi slaga á mínútu og ég tók að efast um geðheilsu mína sem og annarra sem þetta stunda að jafnaði. Það var svo ansi magnað að koma upp úr sjónum í þeim strekkingi sem var í víkinni í hádeginu og finnast vindurinn vera heitur.

En sjaldan hefur mér þótt jafn notalegt að setja rassinn minn á kaf í heitan pott, þó það hafi tekið smá stund að fá jafnvægi í hitabúskap líkamans.

Svo er það bara spurningin: Á ég eftir að fara aftur?


Notfærum okkur vitneskjuna

Í stað þess að gagnrýna auglýsendur legg ég til sem uppalandi að við notfærum okkur vitneskju sem lesa má úr þessari rannsókn. Það er greinilegt, var svo sem vitað áður, að hægt er að hafa veruleg áhrif á börn frá unga aldri. Því tel ég mjög mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem hafa með uppeldi barna að gera byrji sem fyrst að kenna gagnrýna hugsun. Þó að gagnrýnin hugsun sé mörgum erfið í framkvæmd þá er hún mikilvæg fyrir alla að stunda til að komast í gegn um lífið á sem áfallalausasta máta.

Við foreldrarnir höfum miklu meiri áhrif á börnin okkar en einhver sjónvarpsauglýsing ef við bara gefum okkur tíma í að leiðbeina og fræða.


mbl.is Allur matur góður ef hann er merktur McDonalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cortes

Ég á mér nokkra uppáhalds geisladiska. Hingað til hafa tveir verið í þeim hópi, Gling gló með Björk Guðmundsdóttur og tríó Guðmundar Ingólfssonar og Íslenskir Karlmenn með Stuðmönnum og Fóstbræðrum. Hreint út sagt frábærir diskar. Ég hef tekið tarnir í að hlusta á þessa diska, fengið létt leið á þeim en þeir dúkka alltaf aftur og aftur upp í geislaspilaranum mínum (er ekki enn búinn að uppfæra tæknina hjá mér yfir í i-pod).

Og nú er spurningin hvort nýi diskur Garðars Cortes mun bætast í þennan hóp. En hann er í spilaranum þessa stundina og er ekkert á leiðinni út.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband